30.11.08

gærdagurinn

jamm, þessi færsla er ekki um daginn í dag heldur gærdaginn, því í gær lá netið niðri hjá mér. af þeim ástæðum gat ég (augljóslega) ekki verið á netinu og eyddi því góðum tíma í að leita að bókinni Lof Heimskunnar eftir Erasmus. ég á þessa bók einhvers staðar en gallinn er bara sá að ég man ekkert hvert ég setti hana. auðvitað hyggst ég halda áfram að leita, því hvernig get ég lofað heimskuna ef ég hef ekki bókina?

24.11.08

Önd á ýmsum tímum

einn af þessum minnisstæðu Andrés Önd titlum
-skyndilega grípur mig mikil löngun til að lesa þessa sögu.
í dag var síðasti 'fyrirlestratíminn' í bókmenntafræði. ég spurði einnar spurningar í sambandi við söguhöfund í framhaldssögum. ég var beðin um að nefna dæmi og sagði því: ja, nærtækasta dæmið sem ég hef er Ævisaga Jóakims (Aðalandar).
það var hlegið.

22.11.08

ýmsir tímar

bróðir minn minntist á það við mig fyrir nokkru að nú væri hann farinn að huga að eigin útför. hann hefur sum sé misst alla trú á stjórnvöldum etc... og íhugar nú að flytja til Danmerkur. ég held hann ætti bara að gera það. hann þolir hvort sem er ekki veðrið hérna.

19.11.08

seinheppni eða bara eitthvað allt annað...

á síðustu teim/þrem vikum hef ég eytt miklum tíma í að leita að ákveðinni Andrésar Andar sögu sem ég las einu sinni. þessi saga mun vera byggð á Sögunni endalausu. eftirlanga og ítarlega leit á netinu komst ég að þeirri niðurstöðu að þessi umrædda saga hlyti að heita A Tall Tale eða En historie i historien (á dönsku). auðvitað fletti ég upp á hvar og hvenær þessi saga kom út og komst að, mér til sárrar gremju, að ég ætti ekki eitt einasta eintak af henni.

í morgun, þegar ég var að leita aö einhverri áhugaverðri syrpu til að lesa í strætó, rakst ég hinsvegar af tilviljun á þýska jumbóbók hjá mér. ég ákvað að fletta aðeins í henni til að sjá hvaða sögur væru í boði - og viti menn - þarna var sagan sem ég var búin að vera að leita að. reyndar hét hún ekki A Tall Tale eins og ég hélt heldur Abenteuer im Comicland (á þýsku) eða Historien uden ende (á dönsku) - ég hafð þá verið að leita að rangri sögu allan tímann! eftir að hafa síðan flett upp á í hvaða bókum þessi saga birtist komst ég að því að ég á hana líka í danskri útgáfu - og hugsanlega í tveim dönskum útgáfum.... ufff.... hvílík seinheppni.

16.11.08

dagur íslenskrar tungu

ég hafði orð á því í gær við bróður minn að 16. nóvember væri orðinn næstumþví jafn mikilvægur fyrir mér og 9. júní. persónulega grunar mig að þessir dagar eigi eftir að verða álíka mikilvægir í framtíðinni en bróðir minn er annarrar skoðuna - hann heldur að 9. júní eigi alltaf eftir að verða mikilvægari.

eftir þessa umræðu velti ég fyrir mér hvort að nota enskuslettur 16.nóvember sé álíka mikil óvirðing og að horfa vísvitandi á Mikka mús teiknimyndir 9. júní.
þess skal getið að 9. júní er almennt talinn afmælisdagur Andrésar Andar

15.11.08

jólin koma ekki fyrr en í desember

það er mikill misskilningur að jólaskraut snemma í nóvember kæti mann - að minnst kosti fyrir mitt leyti - þvert á móti verður maður hálf pirraður og kemst í fúlt skap. hvenær ætlar fólk annars að átta sig á að jólin byrja ekki fyrr en í desember?

annars á ég eftir að skrifa ritgerð - ég veit ég er óttalegur letingi. kannski það sé ástæðan fyrir því að ég er ekkert 'ofur' kát í dag - veit samt ekki.

ég var niðri í bæ ásamt mömmu í dag (ekki að mótmæla samt). fullt af fólki var á leiðinni niður í bæ gangandi með skilti og fleira... allt í einu sneri mamma sér að mér og sagði: sjáðu allt fólkið. það er örugglega á leiðinni niður á Austurvöll að fylgjast með mótmælunum.
svar mitt var eftirfarandi: ég geri nú ráð fyrir að þetta fólk sé að fara að mótmæla en ekki að fylgjast með mótmælunum.
stuttu seinna, þegar ég sá alla bílarununa, var mér hugsað til Latabæjarleikritsins þar sem allir íbúar Latabæjar mættu á fund á bílunum sínum í stað þess að ganga. ég hló innra með mér.

12.11.08

andafræði

nú hef ég bætt inn mikilvægum tengli í tenglasafnið mitt -in anae veritas est-. þetta er tengill á Sydnordisk Akademi for Donaldisme og þar er hægt að nálgast margar áhugaverðar greinar um andafræði. ég mæli sérstaklega með einni grein sem einskonar 'innleiðslu' í þessi fræði en sú grein heitir Introduktion til bjørnologien og er eftir professor J.G.G. Jakobsen.
áðan hélt ég mig hafa séð náunga sem ég kannaðist einu sinni við. ef þetta hefur verið hann þá þekki ég hann ekki lengur.

7.11.08

frændur okkar norðmenn

hvað varð um umræðuna að taka upp norsku krónuna?
ég sem var farin að hlakka til að skrá mig í Gammel-Donaldismens Venner, sem er svipað félag og DDF(R) og kaupa norsk Andrés blöð í stað þeirra dönsku sem ég hef vanalega keypt. dönsku Andrés blöðin mín berast nefnilega ekki lengur til landsins. ég veit ekki hversu lengi þetta ástand mun vara en mér þykir þetta fremur leitt.

p.s. ég heyri stöðugt sírenuvæl fyrir utan hjá mér þessa stundina og velti fyrir mér hvað sé í gangi.

3.11.08

samviskan

nú er hægt að kveikja ljósið á miðjum degin með góðri samvisku öfugt við á sumrin.

1.11.08

furðuleg samtöl og ýmislegt fleira

áðan var ég að tala við bróður minn og hér er brot úr því samtali
ÉG: ég er eitthvað svo skrýtin í hausnum
BRÓÐIR MINN (YNGRI): ég hef nú alltaf vitað það

annars var ég niðri í bæ áðan og hvílík læti. ég get ekki sagt annað en að það hafi m.a. verið ástæðan fyrir því að ég flýtti mér heim aftur.